Lög félagsins (05.11.2021)

Home 9 log

Nafn og heimili

1. grein
Heiti félagsins er Bowentæknifélag Íslands, skammstafað BTÍ. Enskt heiti félagsins er The
Icelandic Bowen Therapy Association, skammstafað IBTA. Heimili þess og varnarþing er í
Reykjavík.

Tilgangur félagsins

2. grein.
a) Að standa vörð um starfsumhverfi bowentækna.
b) Að tryggja félagsmönnum aðgang að aukinni menntun og að vinna að viðurkenningu
náms í Bowentækni.
c) Að auka skilning og viðurkenningu heilbrigðisyfirvalda, heilbrigðisstétta og almennings á
Bowentækni.
d) Að vinna að því að Bowentækni verði viðurkenndur valkostur innan heilbrigðiskerfisins.

3. grein
Þeir einir geta orðið félagar sem lokið hafa prófi frá European College of Bowen Studies,
E.C.B.S. og/eða College of Bowen Studies, C.B.S.,, eða öðrum sambærilegum skólum
viðurkenndum af stjórn.
Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg og send stjórn félagsins.

Fjármál

4. grein
a) Árgjald skal ákveðið á aðalfundi ár hvert fyrir næsta almanaksár.
b) Stjórnarmeðlimir og nefndarmenn greiða ekki félagsgjald.
c) Til að halda félagsaðild þarf að greiða félagsgjald fyrir eindaga ár hvert. Ef greiðsla berst
ekki fyrir þann tíma dettur viðkomandi út í leit á www.bowen.is og félagaskrá þar til
félagsgjald hefur verið greitt.
d) Reikningsár félagsins er almanaksárið.
e) Allur fjárhagslegur ágóði sem kann að verða af starfsemi félagsins skal nýttur til að auka
veg Bowentækni á Íslandi eða til rannsókna á virkni meðferðarinnar.

Skyldur félagsmanna

5. grein
Félagsmenn skulu sýna meðferðarþegum sínum fyllstu virðingu og siðsemi í hvívetna. Þeim
ber skylda til að virða persónuverndarlög og gæta þagmælsku varðandi allar upplýsingar um
meðferðarþega sína.
Félagsmönnum ber að hlíta gildandi siðareglum Bowentæknifélags Íslands í hvívetna. Auk
þess ber þeim að sjá til þess að við meðferð barns undir lögaldri sé forráðamaður þess
viðstaddur meðferðina.
Sé félagsmaður sakaður um faglegt misferli, um að brjóta lög félagsins eða vinna gegn
hagsmunum þess, skal stjórn vísa máli hans til siðanefndar til umfjöllunar.

Siðanefnd

6. grein
Hlutverk siðanefndar er að setja félagsmönnum siðareglur. Skulu þær háðar samþykki
aðalfundar félagsins. Hlutverk nefndarinnar er einnig að taka á siðferðilegum álitamálum,
sem upp kunna að koma, þ.m.t. brotum félagsmanna á siðareglum.
Siðanefnd starfar skv. lögum félagsins. Siðanefnd skal skipuð þremur fullgildum
félagsmönnum og auk þess tveimur til vara, þurfi nefndarmaður eða nefndarmenn að víkja
sökum vanhæfis. Kosið er í nefndina á aðalfundi til tveggja ára í senn. Formann skal kjósa
sérstakri kosningu annað hvert ár og er hann oddamaður nefndarinnar. Nefndin velur ritara
úr sínum hópi, sem skal skrá og varðveita fundargerðir, sem eru trúnaðarskjöl. Einungis
ályktanir nefndarinnar skulu gerðar opinberar stjórn og félagsmönnum. Nefndin starfar
óháð stjórn félagsins og stjórnarmenn eru ekki kjörgengir í siðanefnd.
Formaður siðanefndar boðar skriflega til fundar, að eigin frumkvæði, eða að ósk formanns
félagsins. Varamenn skulu boðaðir á alla fundi og hafa þeir málfrelsi, en varamaður hefur
einungis atkvæðisrétt í fjarveru aðalmanns.
Hver sem er getur vísað máli til umfjöllunar siðanefndar, en nefndin getur einnig óumbeðin
tekið upp mál. Berist félaginu bréf með erindi til siðanefndar, skal því lokað aftur og
siðanefnd boðuð á fund og bréfið afhent nefndinni þar. Berist nefndinni bréf skal það
opnað á nefndarfundi og bókfært.
Berist siðanefnd kvörtun vegna félagsmanns, ber nefndinni að tilkynna það til stjórnar og til
viðkomandi aðila, að hún hafi kvörtun til umfjöllunar. Við umfjöllun sína skal nefndin
rannsaka allar hliðar málsins, þ.m.t. framburð þess félagsmanns, sem kvartað er undan. Að
umfjöllun lokinni getur siðanefnd lagt til við stjórn að félagsmanni, sem gerst hefur
brotlegur, verði veitt tiltal, eða að honum verði vikið úr félaginu. Tillögu um brottvikningu
skal taka fyrir á félagsfundi þar sem einfaldur meirihluti greiddra atkvæða ræður. Fari stjórn
ekki að tillögu siðanefndar, skal boða aukaaðalfund. Óski félagsmaður, sem vikið hefur verið
úr félaginu, að ganga aftur í félagið, tekur stjórn afstöðu til þess, í samráði við siðanefnd.

Stjórn félagsins

7. grein
Stjórn félagsins skal skipuð að lágmarki 3-5 fullgildum félagsmönnum, sem kosnir eru á
aðalfundi félagsins til tveggja ára í senn. Formann skal kjósa beinni kosningu, en að öðru
leyti skiptir kjörin stjórn með sér verkum og kýs varaformann, gjaldkera og ritara úr sínum
hópi.
Formaður boðar til og stýrir stjórnarfundum, sem skulu haldnir eigi sjaldnar en
ársfjórðungslega. Hann er fulltrúi félagsins út á við.
Ritari ritar fundargerðir og varðveitir. Félagsmenn skulu hafa aðgang að fundargerðum
stjórnar.
Gjaldkeri og formaður eru prókúruhafar en meirihluti stjórnarmanna ritar firma félagsins.
Stjórnin ber ábyrgð á öllum rekstri félagsins og kemur fram fyrir hönd þess. Stjórn skipar í
nefndir félagsins, utan siðanefnd, sem kjörin er á aðalfundi. Stjórn félagsins getur tilnefnt
fulltrúa til trúnaðarstarfa fyrir hönd félagsins út á við.
Komi fram skrifleg vantrauststillaga á stjórn skal hún tekin fyrir á löglega boðuðum
aukaaðalfundi. Hljóti hún samþykki tveggja þriðju hluta greiddra atkvæða telst stjórnin fallin
og skal kjósa nýja, sem tekur við þegar í stað.

Almennir félagsfundir

8. grein
Stjórn skal boða félagsfundi skriflega með minnst viku fyrirvara, nema formanni eða stjórn
þyki brýn nauðsyn bera til skemmri fyrirvara. Stjórn er skylt að halda félagsfund innan
tveggja vikna ef tíundi hluti fullgildra félagsmanna leggur fram skriflega beiðni þar um.

Aðalfundur

9. grein
Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Hann skal halda árlega fyrir 1. maí og
til hans skal boðað skriflega með minnst tveggja vikna fyrirvara. Aðalfundur telst löglegur ef
löglega er til hans boðað.

10. grein
Dagskrá aðalfundar skal vera:
a) Kosning fundarstjóra og fundarritara.
b) Lesin fundargerð síðasta aðalfundar.
c) Skýrsla stjórnar.
d) Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til samþykktar.
e) Atkvæðagreiðsla um upphæð árgjalds.
f) Kosning formanns til tveggja ára, annað hvert ár.
g) Kosning tveggja stjórnarmanna til tveggja ára, annað hvert ár.
h) Kosning formanns siðanefndar til tveggja ára, annað hvert ár.
i) Kosning eins aðalmanns og eins varamanns í siðanefnd til tveggja ára.
j) Kosning eins skoðunarmanns reikninga og annars til vara.
k) Afgreiðsla tillagna um lagabreytingar og breytingar á siðareglum,.

l) Önnur mál.
m) Fundargerð yfirstandandi fundar lesin og borin upp til samþykktar.
n) Fundi slitið.

11. grein
Aðeins fullgildir félagar sem eru skuldlausir við félagið hafa atkvæðisrétt og kjörgengi í
kosningum. Kosningar skulu vera leynilegar, komi fram tillaga um það. Kosningar til
embætta skulu fara fram með handauppréttingum, nema fleiri en einn séu í kjöri, þá skulu
kosningar leynilegar.

12. grein
Lögum félagsins og siðareglum verður aðeins breytt á aðalfundi og skal breytingartillögum
skilað skriflega til stjórnar félagsins eigi síðar en þremur vikum fyrir aðalfund. Þeirra skal
getið í aðalfundarboði. Nái breytingartillaga samþykki tveggja þriðju hluta greiddra atkvæða
öðlast hún gildi.

Slit félags

13. grein
Leggi félagsmaður fram skriflega tillögu um að félagið skuli lagt niður skal hún tekin fyrir á
löglega boðuðum aukaaðalfundi og skoðast samþykkt hljóti hún þrjá fjórðu hluta greiddra
atkvæða. Verði félagið lagt niður skal Bowentækniskóla Íslands falið að varðveita bókfærðar
eignir þess þar til annar félagsskapur rís á sama sviði og með sambærileg markmið.

Previous Next
Close
Test Caption
Test Description goes like this